Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur lækkað umtalsvert í dag og á það við um bæði olíu af Brentsvæðinu og af svæðinu í kringum Mexíkóflóa (WTI). Verðlækkunin kemur í kjölfar mikillar hækkunar olíunnar af Mexíkóflóa í gær. Við lokun kauphallarinnar í New York í gær kostaði tunnan af WTI-olíu 102,58 dali og hækkaði um 3,24% innan dags. Var þetta í fyrsta skipti síðan í byrjun júní sem dagslokaverð WTI-olíunnar var skráð yfir 100 dali.

Það sem af er degi hefur WTI-olían lækkað um 1,47% og kostar tunnan þegar þetta er skrifað 101,08 dali. Olía af Brentsvæðinu í Norðursjó hefur lækkað um 1,93% og kostar tunnan af henni 109,7 dali. Athygli vekur að Brentolían lækkaði í gær öfugt við WTI, um hálft prósent.