Hertar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar hafa orðið til þess að olíuverð hefur lækkað og hefur það ekki verið lægra í fimm mánuði. Hver tunna af Brentolíu kostar nú tæplega 38 dali. BBC greinir frá.

Meðal stórþjóða sem hafa hert aðgerðir hjá sér undanfarna daga eru Bretland, Frakkland og Þýskaland. Þessar aðgerðir hafa vakið upp ótta um að hægja muni á endurreisn heimshagkerfisins. Jafnframt þykir ljóst að aðgerðirnar muni verða til þess að eftirspurn eftir olíu dragist saman. Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum eru einnig taldar geta valdið sveiflum á olíuverði.

Verð Brentolíu, sem oft er notað sem viðmið þegar þróun olíuverðs er skoðuð, hefur lækkað um 45% frá því í byrjun árs.