Samningaviðræður stórveldanna við Íran vegna kjarnorkuáætlunar landsins hafa gengið vel að undanförnu og stutt virðist í að samningar takist. Samningarnir snúast um að efnahagsaðgerðum gegn Íran verði hætt gegn því að takmarkanir verði settar á kjarnorkuáætlun Írana.

Tímaramminn til að semja rennur út á miðnætti í kvöld. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vildi ekki svara því hvort tímaramminn yrði lengdur ef ekki næst að semja í dag. Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, sagði að viðræðum yrði fram haldið eins lengi og þörf væri á.

Reuters greinir frá því að markaðsaðilar telji að samningur við Írana gæti leitt til lækkunar olíuverðs. Ástæðan er sú að ef efnahagsþvingunum gegn Írönum verður hætt má búast við stórauknu framboði af íranskri olíu á heimsmarkaði. Verð á Brent hráolíu hefur lækkað um 1.86% það sem af er degi. Heimsmarkaðsverð á bensíni hefur lækkað meira, um 2,3%.