Hráolíuverð hefur gefið rækilega eftir að undanförnu og nú er svo komið að tunnan af olíu af svæðinu kringum Mexikóflóa (WTI) kostar minna en 78 dali. Lokaverð í gær var 77,6 dalir á tunnu og svo ódýr hefur WTI-olían ekki verið til þess á árinu. Í viðskiptum í nótt hefur verð haldið áfram að lækka.

Svipaða sögu er að segja af olíu af Brentsvæðinu í Norðursjó sem við lokun markaðar í gær kostaði 101,71 dal sem er lægsta verð síðan í febrúar og í nótt hefur verð haldið áfram að lækka. Sem fyrr er það ótti fjárfesta við að draga muni verulega úr umsvifum í hagkerfinu sem dregur verðið niður.