Búist er við að olíuverð í heiminum hafi náð nýju jafnvægi og haldist í kringum 50-60 bandaríkjadali tunnan. Þetta verði líklega staðfest á fundi OPEC í Vínarborg á fimmtudaginn, en ekki er búist við að samtökin, sem ráða um 40% af olíuframleiðslu í heiminum, ákveði að grípa inní markaðinn.

Mikil hækkun á árinu

Olíuverð hafi þegar nánast tvöfaldast síðan það náði 13 ára lágmarki í byrjun ársins, sem fulltrúar samtakanna segja að sýni að stefna leiðandi ríkja í OPEC um að leyfa markaðnum að leiðrétta sig sjálfur sé að virka.

Sádi Arabía ásamt helstu bandamönnum sínum við Persaflóa hafa staðið gegn þeim innan samtakanna sem vilja takmarka framleiðslu því þau hafa viljað losna við offramleiðslu á olíu sem kom til meðal annars vegna olíu sem unnin var með dýrum aðferðum eins og úr jarðlögum í Bandaríkjunum eða með framleiðslu á óaðgengilegum svæðum.

Lágt verð kemur sér illa fyrir fátækari aðildarríki

Veðjuðu þau á að aukin framleiðsla í Bandaríkjunum myndi gera þeim ómögulegt að takmarka heildarmagn olíu í heiminum svo þau hafi því frekar ákveðið að framleiða til að halda í viðskiptamenn sína. Þessi stefna hafi þó skaðað fátækari aðildarríki samtakanna eins og Venesúela og Alsýr sem vilja að samtökin fari aftur að takmarka framleiðslu.

Adel Hamaizia sem rannsakar orkumál við Háskólann í Oxford segir að nú geti Sádi Arabía haldið því fram innan samtakanna að áætlun þeirra hafi gengið eftir.

Sádar venji sig af olíu

Samt sem áður er ekki talið líklegt að sættir náist milli Sádi Araba og Írana vegna deilna þeirra á milli á fundinum á fimmtudag, en Íranir hafa sagt að þeir mundi ekki ræða neinar markaðsaðgerðir fyrr en framleiðsla þeirra nái á nýju því magni sem þeir höfðu áður en refsiaðgerðirnar komu til.

Stefna Sádi Arabíu virðist í auknum mæli vera drifin áfram af stefnu hins þrítuga krónprins landsins Múhammeðs bin Salman en hann hefur lýst yfir vilja til að færa hagkerfi Sádi Arabíu frá því að vera algerlega háð olíuframleiðslu.