Olíuverð í Bandaríkjunum fór niður fyrir 40 Bandaríkjadali á tunnuna af West Texas Intermediate hráolíu á mánudag þegar það fór lægst niður í 39,82 dali en í morgun var það rétt yfir 40 dölunum á mörkuðum í London.

Náði jafnframt Brent hráolían sínu lægsta gildi í þrjá mánuði í kjölfar þess að aukin framleiðsla og útflutningur stærstu olíuframleiðsluríkjanna hafði áhrif á væntingar um verð til framtíðar.

Tímabundið jafnvægi komst á

Leiðandi orkustofnanir heims hafa sagt að nýtt jafnvægi í framboði og eftirspurn eftir olíu sé að nást, en olíuverð er enn að þrýstast niður meðan vogunarsjóðir sem áður bjuggust við hækkunum eru að verða neikvæðari á verðþróun olíunnar.

„Það komst á tímabundið jafnvægi á olíumarkaðnum. En nú þegar olíuframleiðsla sem raskaðist er aftur að komast af stað og þau afföll olíuframleiðslu sem búist var við í Bandaríkjunum rættist ekki þá virðist jafnvægið vera lægra en áður var búist við,“ segir Harry Tchilinguian yfirmaður hráefnamarkaðsmála hjá BNP Paribas.

Auknar skortstöður á olíu

Vogunarsjóðir og aðrir fjármagnsstjórnendur bættu við jafnvirði 56 milljón tunna af skortstöðum á framvirkum samningum á Brent og WTI hráolíu í vikunni sem lauk 26. júlí. Eru bjartsýnar stöður á hráolíu í minnsta mæli í fimm mánuði.

Bijan Zhanganeh, olíumálaráðherra Írans sagðist á mánudag búast við að framboð og eftirspurn myndi jafnast út þó enn væri „offramboð“ á olíu.

Íran, Lýbía og Bandaríkin auka framleiðslu

Af öllum OPEC löndunum hefur Íran aukið framleiðslu sína mest í kjölfar þess að viðskiptaþvingunum var aflétt á landið. Á sama tíma sagði yfirmaður olíufyrirtækis Líbýu, Mustafa Sanalla, að hann fagnaði því að olíuhafnir landsins hefðu verið opnaðar á ný í kjölfar samnings milli þeirrar ríkisstjórnar sem nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna og uppreisnarhóps.

Sagði hann að olíufyrirtækið myndi reyna að koma starfseminni í landinu af stað á ný eins fljótt og auðið yrði. Er markmiðið að landið flytji út 900.000 tunnur á dag í lok árs, að sögn Sanalla.

Olíufyrirtæki Sádi Arabíu hefur einnig lækkað útflutningsverð sitt til viðskiptavina sinna í asíulöndum, en lækkunin kemur vegna væntanlegra minnkunar framleiðslu í olíuhreinsunarstöðvum álfunnar í október þegar viðhaldstímabil hefjast.

Í Bandaríkjunum bættu olíufyrirtæki við olíuborholum fimmtu vikuna í röð, og er hækkunin sú mesta í meira en tvö ár á einum mánuði.