Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði í dag. Brent-olí kostar nú rétt í kringum 31,29 Bandaríkjadali á tunnuna, meðan West Texas Intermediate-tunnan er að kosta í kringum 31,47 Bandaríkjadali.

Stoxx Europe 600 vísitalan hækkaði þá um 3,1% í dag, sem markar tveggja daga hækkun um 5,1%. Það er mesta hækkun sem vísitalan hefur fundið fyrir síðan í nóvember.

Ástæða hækkunarinnar kann að vera sú að Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópubankans, gaf í skyn á blaðamannafundi í gær að búast megi við aukinni magnbundinni íhlutun frá bankanum í vor - í fyrsta lagi í mars.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag hækkaði hlutabréfaverð í íslensku Kauphöllinni samhliða þessum hækkunum í Evrópu. Hversu mikil fylgni er milli markaðanna er enn erfitt að meta, þar eð fjármagnshöft brengla enn samband íslenska markaðarins við heimsmarkaðinn.