„Litlir framleiðendur eru mikilvægir á olíumarkaðinum,“ segir Thina Margrethe Saltvedt, aðalgreinandi olíuiðnaðar hjá Nordea Markets, en hún hélt erindi á morgunverðarfundi Arion banka fyrr í dag. Thina fór yfir áhrifin fyrir lönd við það að verða að olíuútflytjendur. Samkvæmt Thine geta litlir olíuframleiðendur sem ekki búa við mikinn óstöðugleika í stjórnarfari verið mikilvægir á heimsmarkaði. Slíkt gæti átt við um Ísland ef olíuvinnsla myndi hefjast á Drekasvæðinu. Einungis tvö af fimmtán stærstu olíuframleiðsluríkjum heimsins eru ríki sem búa við politískan stöðugleika að hennar sögn..

Í máli Thine kom fram að mikil bjartsýni væri ríkjandi í olíuiðnaðinum í Noregi sökum fjögurra stórra uppgötvana á árunum 2011 og 2012, nýs samkomulags við Rússa um skiptingu olíuvinnslusvæða og hás olíuverðs. Hún segir að olíuverð þurfi að vera um eða yfir 80 dollarar á fatið svo að vinnsla á svæði eins og Drekasvæðinu sé arðsöm. Ekki sé þó að vænta annars en að olíuverð haldist svo hátt á næstu misserum og árum. Margar ástæður eru þar að baki, til að mynda þurfi Mið-Austurlönd á háum olíuverðum að halda til að ríkissjóðir þar séu ekki reknir með miklum halla til viðbótar við að eftirspurn eftir olíu sé sífellt að aukast.