Heimsmarkaðsverð á olíu hefur ekki verið lægra síðan í ágústmánuði árið 2010 og féll verðið á Brent Norðursjávarolíu um 5% í gær. Kostaði tunnan 72,82 dollara í lok dagsins. BBC News greinir frá þessu.

Aðildarríki Opec hittust í gær á fundi í Vínarborg til þess að ræða stöðuna á heimsmarkaði. Jafnvel var búist við að ríkin tækju ákvörðun um að draga úr framleiðslu til þess að halda verðinu uppi. Hins vegar ákváðu fulltrúar ríkjanna að aðhafast ekkert í bili og halda áfram framleiðslu á 30 milljónum tunna á dag.

Abdallah Salem el-Badri, framkvæmdastjóri Opec, sagði eftir fund ríkjanna í gær að þótt verðlækkun hefði átt sér stað þýddi það ekki að þau þyrftu að taka fljótfærar ákvarðanir. „Við þurfum ekki að örvænta. Við viljum fylgjast með markaðnum og hvernig hann hegðar sér.“ Hann segir verðlækkunina eina og sér ekki endurspegla grundvallarbreytingar á markaðnum.