Heimsmarkaðsverð á hráolíu (Crude oil) hefur haldið áfram að lækka í dag. Hafa verðlækkanir á unninni olíu erlendis einnig leitt til þess að íslensku olíufélögin eru að lækka verðin hjá sér. Verð á olíu í framvirkum samningum til afgreiðslu í október var fyrir fáum mínútum skráð 66,39 dollarar hjá Brent í London og 67,40 dollarar tunnan hjá WTI í New York.   Við lokun markaða í gær var verðið í London skráð 67,12 dollara tunnan. Við opnun í morgun fór það í 67,40 dollara og hæst í 67,67 dollara. Lægst hefur verðið þó farið í 66,06 dollara á tunnu í dag. Svipaða sögu er að segja af hrávörumarkaði í New York. Þar var lokaverð í gær 67,96 dollarar á tunnu, en það fór í 68,19 dollara við opnun í morgun. Hæst hefur verðið í New York farið innan dagsins í 68,78 dollara, en lægst í 67,12 dollara á tunnu.