Félagar í „United Steelworkers Union“ (USW) hófu verkfallsaðgerðir í gær eftir að kjarasamningur þeirra rann út. BBC News greinir frá málinu.

Félagið hafði áður hafnað fimm sáttatillögum frá olíufyrirtækinu Royal Dutch Shell sem hefur umboð olíuframleiðenda í samningaviðræðunum.

Samningaviðræðurnar hafa nú staðið yfir í næstum tvær vikur, en verkalýðsfélagið sækist eftir launahækkunum, aukinni heilbrigðisvernd auk þess að félagsmenn þess verði frekar ráðnir til starfa en sjálfstæðir verktakar.

USW hefur félaga frá 65 olíuhreinsistöðvum víðs vegar um Bandaríkin sem framleiða um 64% af olíu í landinu.