Boranir eftir olíu geta hafist á Drekasvæðinu eftir fjögur ár í fyrsta lagi og olíuvinnsla eftir sjö til tólf ár. Fram kom í máli Heiðars Más Guðjónssonar, stjórnarformanns Eyko Energy, sem stendur að olíurannsóknum á Drekasvæðinu, að finnist olía á Drekasvæðinu eftir boranir þurfi að undirbúa borholuna og gera hana vinnsluhæfa. Gangi allt að óskum geti olíuvinnsla hafist 2-3 síðar eða eftir sjö ár í fyrsta lagi.

Heiðar gerði grein fyrir olíuleitinni á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðarbyggð í gærkvöldi.

Haft er eftir Heiðari í Morgunblaðinu í dag að þegar byrjað verði að bora muni margt breytast og umsvifin aukast hratt. Eykon Energy og samstarfsaðilar munu rannsaka Drekasvæðið í sumar og verður í byrjun næsta mánaðar ákveðið með dagsetningar olíuleitar.