Meirihluti olíuvinnslustöðva við Mexíkóflóa hefur verið lokað sökum fellibylsins Gústavs. Fellibylurinn er sá versti sem gengið hefur yfir svæðið frá því árið 2005 þegar fellibylurinn Katrína fór um með hörmulegum afleiðingum.

Gústav hefur nú náð 4 á styrkleika en það er gríðarlegt afl. Fellibylurinn Katrína mældist mestur fimm á styrkleika.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu.

Tæplega 77 prósent olíuvinnslustöðva í Mexíkóflóa hefur verið lokað sem og 37 prósent gasvinnslustöðva.

Gangi spár eftir þá mun Gústav fara yfir Luisiana á þriðjudag og gæti það þýtt jafnmikla eyðileggingu og Katrína hafði í för með sér.

Talið er að vegna þessa geti olíuverð hækkað um 10 Bandaríkjadali á tunnu.