Verð á hráolíu hefur lækkað og stefnir nú í að tunnan fari niður í 100 bandaríkjadali. Olíutunnan í Bandaríkjunum fór lægst í  105,46 dali í dag en það er lægsta verð í fimm mánuði og hafði olíuverð þá lækkað um 10 bandaríkjadali síðan á föstudaginn.

Verð á olíu hafði lækkaði um 4,53% , og kostaði tunnan  110,23 bandaríkjadali við lok viðskipta í dag.

Olíuverð náði nýjum og áður óþekktum hæðum í sumar þegar verðið á olíutunnu fór í 147 bandaríkjadali. Þó svo olíuverð hafi lækkað talsvert síðan þá telst það enn mjög hátt í sögulegu samhengi.

Fréttavefur BBC greinir frá þessu.

Verðlækkanirnar nú eru m.a. raktar til hækkana á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum nýverið. Fellibylurinn Gústav kemur einnig að málunum en spáð var að eyðileggingar af hans völdum myndu hafa áhrif á olíuverð. Þar sem mestur vindur varð úr fellibylnum þá hafði hann ekki þau áhrif sem óttast var.

Talið er að ríkjandi efnahagslægð sem einkennt hefur mörg stærstu hagkerfi heims kalli nú á minnkandi eftirspurn eftir olíu.