Í Orkustefnu fyrir Ísland, drögum stýrihóps um mótun heildstæðrar orkustefnu, sem út komu í janúar eru útreikningar á hugsanlegu verðmæti orkuauðlindarinnar árið 2030 miðað við þær forsendur sem gefnar eru, þ.e. 35 TWh orkuframleiðslu á ári og 110 dala/MWh heimsmarkaðsverð. Í útreikningunum er einnig gert ráð fyrir 40% afslætti af heimsmarkaðsverði vegna „einangrunar landsins“ eins og það heitir. Við sama afslátt var miðað í úttekt Viðskiptablaðsins á verðmæti auðlindarinnar.

Viðskiptablaðinu lék forvitni á að vita hvaðan þessi afsláttartala er fengin, í ljósi þess að gert er ráð fyrir að lagningu sæstrengs verði lokið árið 2030, og hafði í því skyni samband við Vilhjálm Þorsteinsson, formann stýrihópsins. Hann vildi hins vegar ekkert láta hafa eftir sér um málið.