Bankasýsla ríkisins var stofnuð með lögum nr. 88/2009 sem tóku gildi í ágúst árið 2009 en hún fer með eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt lögunum á stofnunin að hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún var sett á fót og á hún þá að vera lögð niður. Nú, fimm árum eftir að Bankasýslan var stofnuð, er enn ekki ljóst hver framtíð hennar verður.

Að sögn Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslu ríkisins, hefur Fjármálaráðuneytið enn ekki haft neitt samráð við Bankasýsluna um framtíð hennar. Að hans mati er engin sérstök ástæða til að breyta starfseminni þar sem fyrirkomulagið eins og það er í dag er að hans mati mjög heppilegt.

„Eins og kemur fram í ársskýrslunni okkar þá er ríkissjóður Íslands með meiri fjárhagslega áhættu heldur en nokkur annar ríkissjóður á Vesturlöndum. Þ.e. hann er með meiri fjárbindingu vegna eignarhluta í viðskiptabönkum heldur en nokkur annar ríkissjóður sem hefur sett upp sérstakar stofnanir til að halda utan um eignarhluti banka. Bankasýslan fer með um 15,5% af eignum ríkisins og hjá stofnuninni eru bara þrír starfsmenn, þannig að maður myndi halda að það væri frekarhagkvæm ráðstöfun,“ segir Jón Gunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .