Í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu er fjallað um sögu Pálma Haraldssonar í flugheiminum. Eftir gjaldþrot Astraeus Airlines í upphafi vikunnar eru nú fjögur flugfélög, sem á einhverjum tímapunkti hafa verið í eigu Pálma, orðin gjaldþrota eða hætt starfsemi.

Iceland Express, sem að vísu er ekki flugfélag heldur ferðaskrifstofa, er nú eina félagið í ferðaþjónustu sem enn er í eigu Pálma.

Það er erfitt að gera sér grein fyrir stöðu Iceland Express í dag. Vörumerki félagsins hefur beðið alvarlegan hnekki á árinu og félagið hefur nú hætt flugi til Bandaríkjanna. Þá er lítið vitað um fjárhagsstöðu félagsins en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er hún mjög slæm um þessar mundir og allt útlit fyrir kaldan vetur.

Margir af helstu lykilstjórnendum Iceland Express hafa hætt störfum undanfarna mánuði. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Pálmi sjálfur mikil áhrif á daglegan rekstur félagsins og leggur línurnar hvort sem hann er staddur hér á landi eða á heimili sínu í Lundúnum. Það hefur fælt stjórnendur félagsins frá auk þess sem félagið hefur farið út í aðgerðir sem reynst hafa kostnaðarsamar.

Nýtt flugfélag Skúla Mogensen, Wow Air, mun hefja flug til og frá Íslandi næsta sumar auk þess sem breska lággjaldaflugfélagið easyJet mun hefja flug hingað til lands í vor. Augljóst er að bæði þessi félög munu veita Iceland Express harða samkeppni en Wow Air flýgur til margra helstu áfangastaða Iceland Express.