Air France hefur nú hafnað því að hafa hætt við áætlanir sínar um að auka við lággjaldaflug í gegnum flugfélagið Transavia. Áformin hafa vakið mikinn ugg meðal flugmanna félagsins sem myndu lækka í launum yrðu þau að veruleika. Fóru þeir í verkfall vegna málsins sem staðið hefur í 10 daga og kostað flugfélagið um 15 milljónir evra dag hvern. BBC News greinir frá málinu.

Samgönguráðuneyti Frakka hafði gefið það út að Air France hefði hætt við áformin, en flugfélagið segir hins vegar í yfirlýsingu að ótímabært hafi verið að greina frá þessu.

Verkfallið stendur enn yfir og á meðan svo er flýgur flugfélagið aðeins um helming venjulegra flugleiða og tapar um leið gífurlegum fjárhæðum.