Áhættustýringunni hjá Sparisjóði Mýrarsýslu í Borgarnesi virðist hafa verið talsvert ábótavant, ef marka má það sem fram kemur um hana í skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina sem kynnt var í dag. Sparisjóður Mýrarsýslu fór í þrot sumarið 2008 og var hann fyrsti sparisjóðurinn sem hlaut þau örlög. Nýja-Kaupþing, sem reis á rústum Kaupþings, tók rekstur Sparisjóðs Mýrarsýslu yfir.

Í skýrslunni segir að forstöðumenn innri endurskoðunar sparisjóðsins sem komu fyrir rannsóknarnefndin hafi ekki verið formleg samskipti milli innri endurskoðunar og áhættustýringar. Þá kom einnig fram að áhættustýring hefði ekki verið formlega skilgreind sem hlutverk einhvers eins starfsmanns og raunar verið í mýflugumynd í sparisjóðnum. Reyndar er tekið fram að ekki hafi verið minnst á að áhættustýringardeild hafi verið starfrækt þar fyrr en í ársreikningi fyrir árið 2007.

Í ársreikningnum segir að forstöðumaður fyrirtækjasviðs annaðist framkvæmd áhættustýringar í umboði sparisjóðsstjóra. Jafnframt sagði að í þeirri uppbyggingu áhættustýringardeildar sem stæði yfir yrði sjálfstæði deildarinnar aukið. Áhættustýring veitti stjórn og áhættustýringarnefnd upplýsingar um stöðu helstu áhættuþátta, meðal annars með tilliti til áhættuviðmiða. Þetta átti að skila því að yfirstjórn sparisjóðsins væri hverju sinni meðvituð um helstu áhættur og gæti brugðist við þeim væri ástæða til.

Starf við áhættustýringu hjá Sparisjóði Mýrarsýslu var auglýst laust til umsóknar í byrjun árs 2008. Auglýsingin skilaði ekki tilætluðum árangri.