Dómur Hæstaréttar í máli Landsbankans og Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV getur hugsanlega haft fordæmisgildi fyrir fjölda sambærilegra mála sem höfðuð voru fyrr í sumar. Einkum snertir það um bil 50 riftunarmál sem Kaupþing hefur höfðað, en þau eru í langflestum tilfellum gegn erlendum fjármálafyrirtækjum eða sjóðum. Um verulegar fjárhæðir er að ræða og segir slitastjórn Kaupþings að í heild sé um að ræða 180 milljarða króna.

Líkt og í Landsbankamálinu snúast þessi mál um uppgreiðslur Kaupþings á eigin skuldum eða kaupum á eigin skuldabréfum og víxlum mánuðina fyrir hrun. Þó eru veigamikil frávik frá aðstæðum í Landsbankamálinu í einhverjum Kaupþingsmálanna.

Í Landsbankamálinu komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að rifta mætti kaupum Landsbankans á eigin víxlum af Rekstrarfélagi verðbréfasjóða ÍV nokkrum dögum fyrir hrun. Tekið er fram í dómnum að í skráningarlýsingu á víxlunum hafi verið tekið fram að ekki mætti greiða þá upp fyrirfram. Lítur Hæstiréttur svo á að með því að kaupa víxlana á markaði hafi hann í raun verið að greiða þá upp og þá hafi Rekstrarfélagið mátt vita að Landsbankinn sjálfur hafi verið kaupandi víxlanna þótt viðskiptin færu fram í gegnum Kauphöllina.

Nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.