Verkfallsboðun á félagssvæðum aðildarfélaga Landssambands íslenskra verslunarmanna var samþykkt í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna allra aðildarfélaganna, sem lauk á hádegi í dag. Kosið var um verkfall meðal félagsmanna sem starfa í fyrirtækjum innan Samtaka atvinnulífsins annars vegar og innan Félags atvinnurekenda hins vegar.

Tímabundin verkföll munu hefjast þann 28. maí næstkomandi og standa til 5. júní. Verði ekki búið að semja þá mun ótímabundið allsherjarverkfall hefjast þann 6. júní.

Aðildarfélög LÍV eru þrettán talsins. Kosningaþáttaka í atkvæðagreiðslunni var á bilinu 25,2%-83,3% og var verkfallsboðunin samþykkt af meirihluta sem var á bilinu 58%-100% af greiddum atkvæðum. Athygli vekur þó að í tilviki samnings Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri við FA þá skiptust atkvæði jafnt. Átta greiddu atkvæði með verkfalli og átta á móti. Á kjörskrá í félaginu voru 28.