Öll áhöfn línubátsins Valdimars GK, en skipsverjar eru fjórtán að tölu, hefur verið greind með kórónaveiruna. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, staðfestir þetta í samtali við Viljann sem fyrstur sagði frá.

Í frétt Viljans segir að upp kom grunur um smit á fimmtudag. Fyrst var talið að um hefðbundin flensueinkenni væri að ræða, en þegar fleiri fóru að veikjast var haft samband við sóttvarnalækni og viðbragðsáætlun fiskiskipa vegna veirufaraldursins virkjuð, að sögn Björns Halldórssonar, öryggisstjóra hjá Þorbirni í Grindavík sem gerir bátinn út.

Í kjölfarið var ákveðið að halda til lands og áhöfnin öll send í skimun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Niðurstaðan lá fyrir eftir hádegi í dag; allir fjórtán skipverjarnir um borð eru smitaðir og komnir í einangrun, eins og segir í frétt Viljans.