*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 25. september 2019 16:48

Öll félög nema tvö lækkuðu í kauphöll

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,45% á rauðum viðskiptadegi í Kauphöllinni í dag. Hækkun Heimavalla yfir 6% í litlum viðskiptum þó.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 1,45% á mjög rauðum viðskiptadegi, en hún fór niður í 1.970,91 stig.

Einungis eitt félag hækkaði í viðskiptum dagsins, Heimavellir um 6,19%, í þó ekki nema rétt rúmlega hálfrar milljóna króna viðskiptum, upp í 1,20 krónur hvert bréf. Engin viðskipti voru svo með bréf í Skeljungi sem stóðu í stað. Á sama tíma hækkaði Össur um 1,51% í dönsku kauphöllinni, í 53,70 danskar krónur.

Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 2,1 milljarði króna, þar af tæplega fjórðungur, eða 493 milljónir króna viðskipti með bréf Marel sem lækkuðu um 1,54%, niður í 574,0 krónur.

Næst mest viðskipti voru með bréf Arion banka, eða fyrir 322 milljónir króna, en bréfin lækkuðu um 0,63% niður í 79,50 krónur. Litlu minni viðskipti voru með bréf Tryggingamiðstöðvarinnar, eða fyrir 303 milljónir króna, en þau fóru niður í 31,65 krónur, í 0,78% lækkun.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Icelandair, eða um 2,85%, niður 6,48 krónur, í þó ekki nema 51 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Sýnar, eða um 1,93%, í 41 milljóna króna viðskiptum, niður í 25,40 krónur. Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Origo, sem lækkuðu um 1,71% í 17 milljóna viðskiptum, en lokagengi þeirra nam 23,0 krónum.

Íslenska krónan styrktist á sama tíma gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum. Sænska krónan lækkaði mest gagnvart þeirri íslensku, eða um 1,34% niður í 12,66 króna kaupgengi. Evran lækkaði um 1,17%, í 135,15 krónur og Bandaríkjadalur um 0,61%, og fæst hann nú á 123,40 krónur.