*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 7. apríl 2021 17:19

Öll græn nema tvö

Magn dagsins með skráð félög var um 4,8 milljarðar króna og hækkaði OMXI10 vísitalan um 0,85%.

Ritstjórn

Skráð félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkuðu öll, utan tveggja, í viðskiptum dagsins. Magn dagsins með skráð félög var um 4,8 milljarðar króna og hækkaði OMXI10 vísitalan um 0,85%.

Hástökkvari dagsins var Skeljungur en virði bréfa félagsins fór upp um 3,43% í 52 milljóna veltu. Á hæla olíufélagsins fylgdu Reginn, Sjóvá og VÍS en hækkun þeirra var á bilinu 1,99-2,04%. Þá hækkuðu Reitir um 1,84% og Kvika hækkaði annan daginn í röð eftir sameiningu bankans og TM. Hækkunin nam 1,43% í 200 milljóna viðskiptum.

Mesta magnið í viðskiptum dagsins var, líkt og oft áður, með bréf í Marel eða tæplega 1,2 milljarðar króna og hækkaði virði hvers hltuar um 0,91%. Þá hækkaði Arion um 0,4% í 879 milljóna viðskiptum, Festi um rúmt prósent í 723 milljóna viðskiptum og Síminn um 0,64% í 613 milljón króna skiptum.

Sem fyrr segir lækkaði gengi tveggja félaga í viðskiptum dagsins en þar voru á ferð Origo og Sýn. Hið fyrrnefnda lækkaði um 0,48%, magnið var sjö milljónir króna, en Sýn dalaði um 0,91% í þrettán milljón króna viðskiptum.