Í dag var skrifað undir samning um að öll heimili í Reykjavík hafi fengið ljósleiðaratengingu árið 2011. Þegar eru ríflega 1.000 heimili í borginni með slíka tengingu, en rekstur þjónustu á netinu hefst í haust. Ráðgert er að tengja um 7.000 til 10.000 heimili árlega næstu ár en heimili í Reykjavík eru um 45.000 talsins. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 6,75 milljarðar króna, að því er fram kemur á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Það voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur sem undirrituðu samninginn en samkvæmt honum, mun Orkuveitan eiga og reka netið, en hún er nú þegar stærsti söluaðili gagnaflutninga í höfuðborginni. Viðskiptaáætlun OR gerir ráð fyrir að fjárfestingin skili sér á rúmum áratug, en minnsti líftími kerfisins er ríflega tvöfalt lengri, eða 25 ár.

Orkuveita Reykjavíkur hyggst ekki reka sjálf þjónustu um ljósleiðaranetið, heldur leggur hún til grundvallar hugmyndafræði Opins nets þar sem öllum, sem uppfylla lágmarkskröfur, verður gefinn kostur á að semja um aðgang að netinu. Opið net gerir öllum þjónustuaðilum kleift að selja íbúum margvíslega þjónustu yfir ljósleiðaranetið, t.d. síma, internet, sjónvarp, myndefni, öryggisvöktun o.fl. Þetta er gert yfir einu og sömu tenginguna sem opnar aðgengi notenda til að kaupa á hverjum tíma þjónustu að eigin vali og jafnframt að njóta efnis sem boðið er án endurgjalds.

Reykjavíkurborg er þriðja sveitarfélagið sem semur við OR um ljósleiðaratengingu heimilanna en áður höfðu Akranesbær og Seltjarnarnesbær gengið frá slíkum samningum. Gengið er út frá því að þeir Reykvíkingar sem kjósa að nýta sér þjónustu yfir ljósleiðaranetið greiði 1.500-2.000 króna fastagjald á mánuði, en heimtaugargjald verður ekkert.

Undanfarin misseri hefur OR lagt lögn utan um ljósleiðarastreng þegar ráðist hefur verið í endurbætur lagna í götum og gangstéttum sem og í nýbyggingarhverfum. Þessi hverfi verða á meðal þeirra fyrstu sem njóta munu tenginga. Aðrir þættir sem áhrif hafa á framkvæmdaröð eru móttökuskilyrði sjónvarps, hagkvæmni vegna þéttleika byggðar og svo munu íbúar geta haft áhrif á hversu fljótt þeirra hverfi verður tengt með því að lýsa áhuga sínum á tengingu á sérstakri netsíðu, sem sett verður upp í þessu augnamiði.