Öll sú ull sem framleidd er hér á landi er nýtt. Annars vegar er hún unnin áfram til dæmis í lopa og hins vegar er hún seld á markaði erlendis,“ segir Guðjón Kristinsson, framkvæmdastjóri Ístex í Mosfellsbæ, aðspurður um hversu mikið magn af þeirri ull sem framleidd er á Íslandi er ónýtanleg. Ástæða fyrirspurnar Viðskiptablaðsins er frétt sem birtist hér í blaðinu í síðustu viku. Þar segir frá hugmyndaríkum ítölskum kaupsýslumönnum í ítalska bænum Biella sem eru teknir að markaðssetja ull til þess að hreinsa upp olíu og fleiri mengunarvalda úr náttúrunni, t.d. eftir slys af því tagi sem átti sér stað í Mexíkóflóa í fyrra.

Biella er þekkt fyrir ullarframleiðslu og þar eru m.a. höfuðstöðvar lúxusfataframleiðandans Ermenegildo Zegna sem vinnur sín föt að mestu úr ull. Áðurnefndir kaupsýslumenn eru þó ekki í samkeppni við Ermenegildo Zegna enda er það ekki gæðaullin sem þeir hyggjast nýta til þess að þrífa upp olíumengun heldur ódýr lággæðaull sem ekki hefur tekist að selja og að öðrum kosti yrði hent. Rannsóknir sem ítölsku kaupsýslumennirnir hafa látið vinna fyrir sig sýna að þessi ódýra ull er þeim kostum gædd að hún sýgur upp í sig um tífalda þyngd sína í olíu og segir Guðjón ekkert textílefni draga jafnmikið af vökva í sig og ullin gerir.

950 tonn á ári

Hann segir íslensku ullina hafa nokkra sérstöðu miðað við erlenda ull vegna togs og þels. Hún hentar mjög vel í grófar peysur eins og t.d. lopapeysur. Ekki mun því gott að nota íslenska ull í jakkaföt af fínni gerðinni enda segir Guðjón að til slíks sé frekar notuð fínni ull eins og merino ull frá Ástralíu. Guðjón segir íslensku ullina líka þeirri bresku að grófleika en bresk ull mun að mestu leyti nýtt í gólfteppaframleiðslu.

Að sögn Guðjóns tekur Ístex á hverju ári við um 950 tonnum af óhreinni ull en fyrirtækið tekur við allri ull sem til fellur á landinu. Þegar búið er að þvo ullina eru um 700 tonn af hreinni nýtilegri ull og rúmlega helmingur hennar nýtt til framleiðslu á lopa. Sú ull sem ekki tekst að hreinsa nægilega vel, t.d. grasmenguð, sé hins vegar seld á markaði erlendis og m.a. nýtt til gólfteppaframleiðslu líkt og sú breska. Aðspurður hvort hægt væri að nýta íslenska ull til hreinsunar á t.d. olíu í náttúrunni segist hann ekki þekkja nægilega vel til þeirra mála en ítrekar að öll ull sem framleidd er í landinu og ekki nýtist til annars sé seld á markaði. Því sé þeim er vilja nýta hana til hreinsunar á olíu í lófa lagið að kaupa ullina á markaði en þá verði þeir væntanlega að borga betur en teppaframleiðendur eða hverjir aðrir sem ullina vilja kaupa.

Guðjón segir heimsmarkaðsverð á ull hafa hækkað mikið á undanförnu ári. Þannig kostaði kíló af óhreinni breskri ull til afhendingar í marsmánuði sl. um 190 pens en ull til afhendingar í mars 2010 kostaði kílóið 116 pens. Jafngildir það um 63% hækkun. Verð er þó aðeins tekið að gefa eftir á ný og kíló af ull til afhendingar nú í maí kostar 163 pens.