*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 10. júlí 2021 10:05

Öll rekin með tapi

Álverin á Íslandi töpuðu samtals um 19 milljörðum króna á síðasta ári en vænta bættrar afkomu í ár.

Álver Alcoa á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Álverin hér á landi töpuðu samanlagt rétt tæpum 19 milljörðum króna í fyrra, samanborið við tæplega 32 milljarða tap árið áður. Heilt yfir hafa þau ekki skilað hagnaði síðan 2017, þegar hann nam 2,6 milljörðum, en útlit er fyrir nokkuð góða afkomu í ár. Eftir að hafa fallið um ríflega fimmtung vegna heimsfaraldursins í fyrravor hefur álverð hækkað gríðarlega, er nú að nálgast tvöföldun frá lágpunktinum í fyrra, og hefur ekki verið hærra í áratug.

Þrefalt minna tap Alcoa
Alcoa á Íslandi tapaði 6 milljörðum króna í fyrra eða rúmum 44 milljónum Bandaríkjadala. Það er þó talsvert betra en árið áður, þegar tapið var tæplega þrefalt meira, í dölum talið.

Tekjur félagsins námu ríflega 80 milljörðum í fyrra og drógust saman um 7,5% í dölum milli ára, en rekstrargjöld námu 84 milljörðum og drógust saman um tæp 16%, auk þess sem hrein fjármagnsgjöld námu 2,5 milljörðum króna og drógust saman um 38%.

Greidd laun félagsins námu 5,8 milljörðum í fyrra og jukust um 5% milli ára í krónum talið, en drógust saman um 5% í dölum, sökum gengisveikingar krónunnar. Meðalfjöldi starfsmanna var 565 og jókst um 7,2% milli ára, og meðallaun námu rúmum 850 þúsund krónum á mánuði og drógust lítillega saman.

Eignir námu 167 milljörðum í lok síðasta árs og drógust lítillega saman milli ára. Eigið fé nam 35,6 milljörðum króna og dróst saman um 11,5% í dölum, og eiginfjárhlutfall féll um rúm 2 prósentustig í 21,3%.

Framleiðsla álversins á síðasta ári var um 335 þúsund tonn, sem er í skýrslu stjórnar sagt „nokkuð minna“ en framleiðslugeta verksmiðjunnar. Ástæðan er sögð sú að ekki hafi verið unnt að endurbyggja úreld ker í sama magni og þau duttu úr rekstri, en þó kemur fram að 322 ker af 336 eða tæp 96% hafi verið í rekstri að meðaltali yfir árið. Gert er ráð fyrir að öll ker verði í rekstri í lok þessa árs, og er málmblönduframleiðsla í fyrra sögð hafa verið aðeins 69% af því sem áætlað er í ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Alcoa