Gagnaveita Reykjavíkur mun ljúka ljósleiðaravæðingu Reykjavíkur fyrir lok þessa árs. Stefnt er að því að meirihluti heimila í Kópavogi og stór hluti heimila í Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ verði tengd í lok þessa árs. Þá verða liðlega 70 þúsund heimili á öllu athafnasvæði Gagnaveitunnar komin með möguleika á að nýta sér Ljósleiðarann. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Um 33 þúsund heimili eru nú þegar tengd Ljósleiðaranum. 80% þeirra heimila nota Ljósleiðarann, sem er hátt hlutfall á heimsvísu. Ísland er nú þegar meðal tíu efstu þjóða Evrópu í dreifingu á ljósleiðara með 55% heimila sem hafa aðgengi að öflugum ljósleiðara. Með ljósleiðara Gagnaveitunnar ná viðskiptavinir hröðustu tengingu sem býðst, með 100 Mb/s-400 mb/s hraða bæði í niðurhalshraða og upphalshraða, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni.

„Viðskiptavinir okkar kalla sífellt eftir meiri hraða þar sem þörfin til að miðla efni í báðar áttir hefur aukist með tilkomu netsjónvarpsveitna, samfélagsmiðla og annarrar miðlunar efnis. Þannig er fyrirtækið að fylgja eftir þróun sem á sér stað hjá framsæknustu fjarskiptafyrirtækjum heims eins og t.d. Google í Bandaríkjunum. Ljósleiðarinn er sú tækni sem þarf til.“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.