Verkfræðifyrirtækið Hönnun hf. hefur fengið gæðavottun samkvæmt svonefndum ÍST EN ISO 9001:2000 staðli. Nær vottunin til allrar þjónustu á sviði hönnunar og ráðgjafar sem Hönnun hf. veitir, hvort sem er í höfuðstöðvum fyrirtækisins og rannsóknarstofu í Reykjavík eða á starfsstöðum úti á landi.

Það var Vottun hf. sem tók út og vottaði gæðakerfi Hönnunar og afhenti Kjartan Kárason, framkvæmdastjóri Vottunar, Eyjólfi Árna Rafnssyni, framkvæmdastjóra Hönnunar, skjal því til staðfestingar við athöfn í höfuðstöðvum Hönnunar.

ÍST EN ISO 9001:2000 staðallinn gerir kröfu um að fyrirtæki mæli reglulega árangur og ánægju viðskiptavina með þjónustuna og var þessum tímamótum vel fagnað af bæði starfsfólki og stjórnendum Hönnunar. ?Það hefur farið fram mikil vinna í fyrirtækinu til að ná þessu markmiði,? sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri Hönnunar. ?Þakka ég þennan árangur fyrst og fremst samstilltu átaki starfsfólks og nú er það undir okkur komið að standa undir þessu gæðamerki og þeim væntingum sem því fylgja.?

Vottunin nær til hönnunar og ráðgjafar á sviði húsbygginga, samgangna, veitna, orkuvirkja, stóriðju, eftirlits, vélbúnaðar, iðnaðarferla, umhverfismála, jarðvísinda, áætlunargerðar, verkefna-, byggingar- og ferilstjórnunar og steinsteypu-, berg- og jarðfræðirannsókna. Er Hönnun hf. með fyrstu ráðgjafar- og verkfræðifyrirtækjum landsins sem fær slíka vottun en ríflega þrír tugir fyrirtækja hér á landi hafa nú fengið gæðakerfi sín vottuð samkvæmt ISO staðlinum, langflest þeirra í framleiðslu- eða þjónustugreinum.

Hönnun hf. var stofnuð árið 1963 og eru starfsmenn um 150 talsins. Höfuðstöðvar eru að Grensásvegi 1 í Reykjavík og starfsstöðvar á Akranesi, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Kirkjubæjarklaustri, Hvolsvelli og Selfossi. Hönnun á hlut í Tækniþingi á Húsavík, Loftmyndum í Reykjavík og Skipaskoðun Íslands. Hönnun er fyrirtæki ársins 2005 í flokki stærri fyrirtækja samkvæmt könnun VR.