Fjögur tilboð bárust í gerð Landeyjahafnar og Bakkafjöruvegar og voru þau öll undir kostnaðaráætlun. Tilboðin voru opnuð hjá Siglingastofnun Íslands í dag og verða þau metin nánar á næstu tveimur til þremur vikum.

Þetta kemur fram á vef samgönguráðuneytisins.

Kostnaðaráætlun Siglingastofnunar hljóðaði uppá rúmlega 3,1 milljarð króna. Tilboðin voru svohljóðandi:

Suðurverk      1.867.664.916 kr.

Klæðning         2.090.000.000 kr.

Ístak                  2.489.721.965 kr. og frávikstilboð 2.289.721.956 kr.

KNH                  2.774.752.100 kr.

Verkið snýst um gerð tveggja um 700 metra langra hafnargarða Landeyjahafnar, gerð 11,8 km Bakkafjöruvegar (254) frá Hringvegi (1) að Landeyjahöfn, byggingu 20 m langrar brúar á Ála, rekstur 120 m stálþils, gerð vegtengingar frá Bakkafjöruvegi að Bakkaflugvelli og gerð 3,9 km sjóvarnar- og varnargarða í Bakkafjöru.

Gerð varnargarða við Ála og Markarfljót skal lokið 1. nóvember 2008. Gerð brúar á Ála skal lokið 1. maí 2009. Uppmokstri úr hafnarkví skal lokið 1. júlí 2009. Fyrir 1. október 2009 skulu brimvarnargarðar komnir í fulla lengd.

Verkinu skal að fullu lokið þann 1. júlí 2010 samkvæmt vef ráðuneytisins.