Ístak hf. átti lægsta tilboð í vegslóð vegna Fljótsdalslína 3 og 4, sem flytja munu raforku Kárahnjúkavirkjunar að álverinu við Reyðarfjörð. Ístak bauð ríflega 142 milljónir króna í verkið en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á yfir 340 milljónir króna.

Þetta verkefni varðar vegslóð að og meðfram möstrum Fljótsdalslína 3 og 4 á um 50 kílómetra langri leið úr Fljótsdal að Hrauni við Reyðarfjörð þar sem álverið á að rísa. Hluti framkvæmdasvæðisins er á láglendi í Fljótsdal, Skriðdal og í botni Reyðarfjarðar en stærstur hlutinn í fjalllendi í allt að 620 metra hæð yfir sjávarmáli: á Víðivallahálsi, Hallormsstaðarhálsi, Í Hallsteinsdal og á Hallsteinsvarpi og á Þórsdalsheiði.

Gert er ráð fyrir að slóðargerð í Hallsteinsdal og á Hallsteinsvarpi ljúki fyrir 15. ágúst og í Áreyjadal fyrir 15. september. Verkinu öllu skal lokið fyrir næstu áramót .

Háspennulínurnar úr Fljótsdal til Reyðarfjarðar verða reistar á árunum 2005 og 2006. Verkinu á að ljúka í byrjun vetrar 2006.

Þessir sendu inn tilboð:

Ístak hf. 142.013.854

Héraðsverk ehf. 159.486.492

K.N.H. ehf. Ísafirði (Kubbur-Norðurtak-Höttur) 224.100.000

E.T. ehf. og Afrek ehf. 170.565.000

Íslenskir aðalverktakar hf. 277.131.734

Kostnaðaráætlun 340.809.294