Seðlabanki Íslands mun ekki hagnast á auknu virði danska bankans FIH þrátt fyrir að eiga veð í öllum hlutabréfum hans. Það þýðir að Seðlabankinn mun fá 500 milljón evra lánið sem hann veitti Kaupþingi rétt fyrir bankahrun greitt til baka auk vaxta. Öll önnur virðisaukning á FIH mun renna til skilanefndar Kaupþings. Í Morgunblaðinu í morgun kom fram að bókfært eigið fé FIH væri nú helmingi hærra en upphaflegt veð Seðlabankans fyrir láninu til Kaupþings, og að Seðlabankinn áformi að selja hlutabréf sín í bankanum árið 2012 og að andvirðið renni í gjaldeyrisvarasjóð bankans.

Gætu borgað lánið og haldið FIH

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings er FIH eign nefndarinnar. Því getur Seðlabankinn ekki selt hlutabréf bankans. Seðlabankinn á hins vegar veðrétt í öllum hlutabréfum skilanefndarinnar í FIH og getur gengið að því veði. Ef það gerðist hefði skilanefndin hins vegar alltaf tækifæri til þess að greiða upp lánið við Seðlabankann og myndi líkast til gera það ef að virði bréfanna í FIH væri talið mun meira en lánsupphæðin, enda hlutverk nefndarinnar að hámarka virði þeirra eigna sem hún hefur umsjón með. Þess utan gæti Seðlabankinn aldrei tekið yfir bréfin nema á gangvirði (fair value), samkvæmt upplýsingum frá skilanefndinni. Ef Seðlabankinn myndi ætla sér að taka yfir hlutabréfin í FIH þá þyrfti því að fara fram verðmat á þeim. Ef virði þeirra væri hærra en sem nemur þeirri upphæð sem skilanefnd Kaupþings skuldar Seðlabankanum þá þyrfti bankinn að greiða skilanefndinni mismuninn eða að leysa einungis til sín hluta bréfanna.

Seðlabankinn veitti Kaupþingi 500 milljóna evra lán þann 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett, gegn veði í öllum hlutabréfum bankans í FIH. Kaupþing féll síðan nokkrum dögum síðar og skilanefnd var skipuð til að sjá um bú hans. Hún heldur á meðal annars á öllum erlendum eignum bankans, til dæmis FIH.