Nú þegar mikill meirihluti atkvæða í aukakosningum til tveggja sæta Georgíu í öldungadeild Bandaríkjaþings hefur verið talinn bendir nær allt til þess að Demókratar hafi borið sigur úr bítum. Ef það verður lokaniðurstaðan hafa Demókratar tryggt sér meirihluta þingmanna í fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings. Að auki bar forsetaefni flokksins Joe Biden, líkt og þekkt er orðið, sigur úr bítum í forsetakosningum gegn Repúblikananum og sitjandi forseta, Donald Trump.

Því er allt útlit fyrir að 100 þingsæti öldungadeildarinnar muni skiptast jafnt milli flokkanna og mun atkvæði Kamala Harris, verðandi varaforseti úr röðum Demókrata, ráða úrslitum í málum sem ekki ríkir samstaða um milli flokkanna.

Samkvæmt umfjöllun New York Times eru yfirgnæfandi líkur á að Demókratinn Raphael Warnock hafi lagt Repúblikanann Kelly Loeffler af velli. Þá þykja einnig meiri líkur á að Demókratinn Jon Ossoff hafi betur gegn Repúblikananum David Perdue. Að sögn miðilsins hafa 98% atkvæða verið talin.