Olli Rehn, sem fer með efnahags- og peningamál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir að sambandið sé tilbúið að veita Íslandi tæknilega aðstoð við að lyfta gjaldeyrishöftunum.

Bloomberg fréttastofa greinir frá í dag.

Rehn hitti Árna Pál Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra í Brussel í dag. Bloomberg fréttastofa hefur eftir Rehn að það sé afar mikilvægt að ríkisstjórn Íslands undirbúi nú að lyfta gjaldeyrishöftunum. „Við erum tilbúin að að veita tæknilega aðstoð við þessa vinnu,“ segir Olli Rehn.

Árni Páll sagði það ekki auðvelt verkefni að fjarlægja höftin, á blaðamannafundi með Rehn í dag. Hann sagði þörf á öllum þeim ráðum og aðstoð sem býðst. Það sé mikilvægt að leita aðstoðar til þess að tryggja að neikvæð áhrif verði sem minnst.