Haft er eftir Olli Rehn, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, á Bloomberg í dag að það væri alveg ljóst að Króatía yrði næsta aðildarríki ESB.

Þetta kom fram í máli hans á ráðstefnu á vegum Deutsche Bank í Brussel í dag.

Þar sagði hann að aðildarviðræður við Íslendinga væru mögulegar fyrir lok ársins. „Það er þó alveg ljóst að Króatía verður 28. aðildarríki sambandsins," sagði hann.

Í ljósi þess m.a. að Íslendingar hefðu þegar innleitt tvo/þriðju af löggjöf ESB, m.a. í gegnum EES-samninginn, gætu viðræðurnar gengið hraðar fyrir sig. Íslendingar myndu þó  ekki verða aðilar að ESB á undan Króötum því þótt löndin yrðu aðilar á sama degi - yrðu Króatar á undan því farið væri eftir stafrófsröð.

Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin kynnt drög að þingsályktunartillögu um að ríkistjórnin leggi inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.

Samfylkingarfólk hefur lagt áherslu á að málið verði afgreitt á sumarþingi.