Birna Einarsdóttir, formaður stjórnar Samtaka fjármálafyrirtækja og bankastjóri Íslandsbanka, segir að fjármálafyrirtæki hafi ekki skorast undan því eftir hrunið að taka á sig álögur. Þvert á móti hafi þau sýnt mikinn samstarfsvilja og verið fús til þess að bregðast við gjörbreyttu landslagi með því að greiða meira til samfélagsins. Öllu megi þó ofgera og nú sé svo komið að frekari skattar á fjármálastarfsemi geti haft miklar afleiðingar fyrir fjármálaþjónustu í landinu.

Greint er frá því í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins að meðal þess sem lagt er upp með í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 er sérstakur skattur sem leggst á launakostnað eftirlitsskyldra aðila. Undir eftirlitsskylda aðila falla bankar og tryggingafélög. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) funduðu með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í vikunni vegna skattsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gera núverandi fyrirætlanir ráð fyrir 10,5% skatti ofan á launakostnað. Heimildir herma ennfremur að skattinum sé ætlað að skila fjórum til fimm milljörðum í ríkiskassann.

„Það er verið að endurskipuleggja skattaumgjörð fjármálamarkaða um allan heim og það skiptir máli að við séum ekki með einhverja séríslenska umgjörð. Það mun draga úr samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs, jafnframt því að fyrirtæki geti síður komið á markaðinn. Ég tel því að það verði að fara varlega í þessum efnum og frekar að fylgja eftir alþjóðlegri þróun þegar kemur að skattaumgjörðinni hér á landi.“