Aðalmeðferð stendur nú yfir í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og þremur undirmönnum hans í bankanum. Eru þeir sakaðir um að hafa með kauphallarviðskiptum handstýrt verði hlutabréfa í bankanum á þaulskipulagðan hátt.

Sigurjón hóf skýrslugjöf í morgun fyrir dómi og greinir Morgunblaðið frá því að hann hafi haldið tilfinningaþrungna ræðu sem stóð í eina og hálfa klukkustund. Segir Sigurjón að sérstakur saksóknari hafi snúið öllu á haus í málinu og aldrei hafi verið reitt jafnhátt til höggs til að sanna eitthvað sem ekki sé til gagnvart blásaklausu fólki.

Sigurjón benti á að þau viðskipti sem ákært er fyrir í málinu hafi verið eðlileg í bankanum og hafi verið stunduð áður en hann hóf þar störf árið 2003. Ekkert sé hæft í því að bankinn hafi gert tilraun til þess að halda uppi hlutabréfaverði í bankanum fyrir hrun. Sagði hann jafnframt að hann hefði hvorki gefið starfsmönnum eigin fjárfestinga bein né óbein fyrirmæli.