Konunglega kvikmyndafélagið, sem rekur fjölmiðlana Bravó og Miklagarð, leitar nú að nýju hlutafé til að styrkja rekstur félagsins. Af þeim sökum hefur öllu starfsfólki Konunglega kvikmyndafélagsins verið sagt upp störfum og voru starfsfólki kynntar þessar aðgerðir á starfsmannafundi sem fram fór fyrr í dag.

Í tilkynningu segir að Konunglega kvikmyndafélagið hafi sagt upp 11 fastráðnum starfsmönnum, þar á meðal fjármálastjóra og framkvæmdastjóra félagsins, sem og verktökum sem sinnt hafi störfum fyrir félagið. Vonir standa til að með öflun nýs hlutafjár verði hægt að ráða þá alla aftur. Gert er ráð fyrir óbreyttri dagskrá áfram og áhorfendur munu ekki finna fyrir þessum aðgerðum að svo komnu máli.

„Endurskipulagning nauðsynleg vegna mikils kostnaðar 
Konunglega kvikmyndafélagið hefur unnið að undirbúningi Bravó og Miklagarðs í tæpt ár og fóru miðlarnir í loftið í byrjun marsmánaðar. Kostnaður við uppsetningu reyndist meiri en áætlað var auk þess sem frestun á opnun stöðvanna setti strik í reikninginn. Miklagarði og Bravó hefur verið vel tekið af áhorfendum og auglýsendum og eru mörg jákvæð teikn í rekstrinum. Vefur Bravó er þegar orðinn einn mest sótti vefur landsins. Nýtt app verður kynnt til sögunnar á næstu dögum og verður mikilvæg dreifileið fyrir efni þessara stöðva. Áætlanir stjórnenda gera ráð fyrir frekari sókn í kjölfarið á væntanlegri innkomu nýs hlutafjár,“ segir í tilkynningu frá Sigmari Vilhjálmssyni.