Skattrannsóknarstjóri hefur vísað ellefu málum, sem teljast til meiri háttar brota á skattalögum, til embættis sérstaks saksóknara. Upphæðirnar hlaupa frá vantöldum tekjum upp á nokkur hundruð milljónir króna og yfir einn milljarð. Embætti sérstaks saksóknara hefur gefið út nokkrar ákærur í þessum málum og eru þau mislangt komin í dómskerfinu. Nýjasta dæmið um slíkt er mál sérstaks saksóknara gegn Gunnlaugi Briem, sem vb.is sagði frá á föstudaginn . Þá er skammt síðan greint var frá ákæru á hendur Bjarna Ármanssyni .

Þar á meðal er einnig skattaundanskot Eiríks Sigurðssonar , sem löngum er kenndur við verslunina Víði, en hann er sakaður um að hafa vantalið tekjur sínar af afleiðuviðskiptum um rúmar 800 milljónir króna og stungið rúmum 80 milljónum króna undan skatti. Endurskoðandi Eiríks er sömuleiðis ákærður í málinu og er þess krafist að hann verði sviptur réttindum sínum.

Þá var Ragnar Þórisson , sjóðsstjóri og stofnandi vogunarsjóðsins Boreas Capital, ákærður í fyrrahaust fyrir undanskot á 12 milljónum króna. Þeir sem gerast brotlegir gegn skattalögum geta átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisdóm.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.