Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, segir að fréttir um að helsti keppinautur félagsins um slóvenska símafyrirtækið Telekom Slovenije, breskþýska samstæðan Bain Capital & Axos Capital í samvinnu við BT Globalne frá Slóveníu, hafi dregið sig úr keppninni, hafi engin áhrif á viðræður Skipta við slóvensku einkavæðingarnefndina.

„Við höldum okkar viðræðum við einkavæðingarnefndina áfram. Telekom Slovenije er vissulega áhugavert félag og við teljum að góð tækifæri séu í þessum viðskiptum ef af þeim verður. Við höfum hins vegar margítrekað við viðsemjendur okkar að það er öllum í hag að aðilar reyni að ná niðurstöðu sem fyrst,“ segir Brynjólfur.

Tilboð Skipta er það eina sem enn stendur. Upphaflega, eða í október síðastliðnum, buðu tólf félög í Telekom Slovenije en þau hafa fallið frá tilboðum sínum eitt af öðru. Einkavæðingarnefnd Slóveníu hefur m.a. sætt gagnrýni fyrir hægagang en heimildir Viðskiptablaðsins herma að í ljósi þess hversu umfangsmikil og flókin viðskiptin séu verði að sýna töfunum nokkurn skilning. Væntanlega sé það þó aðilum í hag að ljúka málinu hið fyrsta.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að umfjöllun um samstæðuna í Slóveníu gefi til kynna að í raun hafi samstæðan aldrei verið skæður keppinautur Skipta um Telekom Slovenije, þar eð hún kynnti sig fyrst og fremst sem fjárfesti sem ætlaði að setja hlutabréfin að veði til að fjármagna kaupin og afskrá síðan félagið. Hugsanlega megi þess þó vænta að ákvörðun samstæðunnar setji aukinn þrýsting á nefndina um að ljúka einkavæðingarferlinu.