Þrír þingmenn VG hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra, verði falið að senda tilmæli til Íbúðalánasjóðs og áskorun til lífeyrissjóða og fjármálastofnana um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum þar til niðurstaða liggur fyrir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

Í greinargerð með tillögunni segir að hún hafi áður verið flutt á síðasta löggjafarþingi og sé nú endurflutt óbreytt. Þá segir að stjórnarflokkarnir hafi gefið mjög afdráttarlaus loforð í þágu skuldsettra heimila í tengslum við myndun núverandi ríkisstjórnar og í aðdraganda að síðustu alþingiskosningar.

„Nú er fyrir löngu komið á daginn að hinar boðuðu aðgerðir láta á sér standa. Athafnir stjórnvalda hingað til vegna málefna skuldara hafa reynst smáar í sniðum og innihaldsrýrar. Aðgerðaleysið kom berlega í ljós þegar forsætisráðherra flutti Alþingi skýrslu sína um „aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi,“ segir í ályktuninni.

Flutningsmenn tillögunnar eru þingmennirnir Ögmundur Jónasson, Árni Þór Sigurðsson og Bjarkey Gunnarsdóttir.