Undanþágunefnd dýralækna hafnaði í morgun öllum undanþágubeiðnum frá svína- og kjúklingaframleiðendum nema Ísfugli. Sigríður Gísladóttir hjá Dýralæknafélagi Íslands segir í samtali við fréttastofu RÚV að ástæðan sé sú að bændurnir hafi ekki lagt fram yfirlýsingu um að þeir setji kjötið ekki á markað.

Hins vegar verður undanþágubeiðni Ísfugls frestað þar til ljóst verður hvort eitthvað komi út úr kjaraviðræðum Bandalags háskólamanna og ríkisins í dag.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að svínabú Síldar og fisks myndi aflífa 120 til 150 grísi yrði undanþágubeiðni félagsins ekki samþykkt í dag . Kjötinu yrði svo hent, en magnið samsvarar um 100 þúsund máltíðum.