HB Grandi stefnir að því að láta af botnfiskvinnslu á Akranesi og hefur hafið samtal við trúnaðarmenn stéttarfélaga starfsmanna vegna málsins. Öllum 93. starfsmönnum HB Granda sem starfa í botnsfiskvinnslu á Akranesi verður sagt upp störfum um mánaðamótin, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins .

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi segir tíðindin reiðarslag fyrir samfélagið í samtali við Mbl.is . Hann segir málið í reynd vera verra en það lítur út og að ekki muni einungis þessi 93 störf tapast heldur muni önnur fyrirtæki á Akranesi og starfsfólk þeirra sem þjónusta HB Granda verða fyrir afleiðingum þessa.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að það sé fyrst og fremst sterk staða krónunnar og erfið rekstrarskilyrði í landvinnslu sem skýra áform HB Granda um að hætta með botnfiskvinnsluna á Akranesi.

Jónína Björg Magnúsdóttir, fiskverkakona á Akranesi sagði í kvöldfréttum í gær spurð að því hvernig hljóðið í staðarfólki hafi verið: „Það var bara ekkert hljóð. Fólk vissi ekki hvað það ætti að segja. Óöryggi í þessum aðstæðum sem skapast.“