Öllum starfsmönnum íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Gogogic hefur verið sagt upp störfum. Alls starfa 27 manns hjá fyrirtækinu. Fréttastofa RÚV greinir frá. Í samtali við fréttastofuna segir Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að uppsagnirnar séu fyrst og fremst varúðarráðstöfun. Unnið sé að endurfjármögnun og að uppsagnir verði dregnar til baka um leið og það tekst.

Hann segir verkefnastöðu góða og að starfsemi muni ekki breytast. Þekktasti leikur fyrirtækisins er Vikings of Thule, sem er meðal annars spilaður í gegnum samskiptasíðuna Facebook.