Kampi á Ísafirði hefur sagt upp öllum starfsmönnum i rækjuvinnslu fyrirtækisins, eða 32 starfsmönnum, frá og með deginum í dag. Starfsmennirnir hafa þriggja mánaða uppsagnarfrest.

Í tilkynningu frá Kampa segir að ástæða uppsagnanna sé árstíðabundin óvissa í hráefnismálum í rækju næstu mánuði sem og  væntanlegt frumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu á úthafsrækju sem lagt verður fram á Alþingi á næstu vikum.

„Næstu vikur munu fara í endurskipulagningu og á þeim tíma verða teknar ákvarðanir um hvernig rekstri félagsins verður háttað í náinni framtíð.  Þá mun koma í ljós hvort þessar uppsagnir verði látnar standa eða hvort þær verði allar eða einhverjar dregnar til baka,“ segir á vef Kampa.