Allir starfsmenn KNH verktaka á Ísafirði fengu uppsagnarbréf í dag, en um er að ræða 33 starfsmenn. Var greint frá þessu í fréttum RÚV í kvöld. KNH verktakar hafa verið nokkuð umsvifamiklir jarðvinnuverktakar undanfarin ár. Árið 2007 störfuðu um hundrað manns hjá fyrirtækinu. Haustið 2009 var sextíu starfsmönnum sagt upp á einu bretti og fyrirtækið hefur verið í greiðslustöðvun síðan í sumar.

Sigurður Óskarsson, framkvæmdastjóri KNH, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að ástæðan væri fyrirsjáanlegur verkefnaskortur upp úr áramótum. Félagið hefur nýlokið vinnu við Suðurstrandarveg og verkefni þess á Vopnafirði er að ljúka. Hann vonast til að hægt verði að endurráða einhverja starfsmenn.