Öllum núverandi starfsmönnum býðst að flytja með Fiskistofu norður. Þetta segir á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Eins og fram hefur komið ákvað Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í dag að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Ákvörðunin er tekin á grundvelli stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að „Mikilvægt sé að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa…“

Á vef ráðuneytisins segir að áætlað sé að hluti af flutningi starfseminnar muni gerast vegna starfsmannaveltu þannig að ráðningar verða fyrst og fremst á Akureyri.  Velji starfsmenn að segja upp í tengslum við þessar skipulagsbreytingar, mun þeim bjóðast fagleg aðstoð við endurmenntun og atvinnuleit.

Á VB.is kom fyrr í dag að ákvörðunin um að færa Fiskistofu kom verulega flatt upp á starfsfólkið.