Samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi, um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, geta allir sem eiga frjálsan séreignarsparnað leyst út allt að 1 milljón kr. samkvæmt umsókn til vörsluaðila á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins en fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu opinberra gjalda, í níu mánuði frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila.

Útgreiðslutími styttist þó hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 1 milljón kr. er að ræða. Þetta svarar til þess að einstaklingur fái um 70 þús. kr. á mánuði, að frádreginni staðgreiðslu, til viðbótar ráðstöfunartekjum sínum.

Þessi leið er fyrst og fremst hugsuð til að koma til móts við þá sem eiga í tímabundnum fjárhagserfiðleikum, t.d. vegna atvinnumissis. Ekki er það þó gert að skilyrði að viðkomandi eigi í fjárhagserfiðleikum heldur eiga allir kost á þessari fyrirgreiðslu.

Sjá nánar á vef fjármálaráðuneytisins.