Fyrirtækið Já var stofnað sem sérstakt fyrirtæki á árinu 2005 en hafði áður verið rekið sem deild innan Símans. Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Já og einn eigenda fyrirtækisins, segir að þetta hafi verið hálfgert olnbogabarn. „Því tókum við ákvörðun innan Símans að gera eininguna að sjálfstæðu fyrirtæki. Úr varð að við stofnuðum Já árið 2005. Það var mjög skemmtilegt verkefni, og ég líki því oft við að eignast barn, en þá er að mörgu að hyggja, m.a. að finna nafn.“

Barnið Já hefur vaxið og dafnað í höndum núverandi stjórnenda. „Starfsemi Já byggir á því að tengja fólk við fólk og fólk við fyrirtæki, þannig verða til viðskipti þegar verið er að nota þjónustu okkar. Við höfum lagt á það ríka áherslu að það skipti ekki máli hvernig þú vilt nota þjónustu okkar, hvort sem er í prenti, í símtali, á netinu eða með snjallsímaforriti. Þó er hinn stafræni heimur alltaf að spila stærra og stærra hlutverk hjá Já og tilflutningur er frá hefðbundnum miðlum fyrirtækisins til þeirra stafrænu.“

Nánar er rætt við Katrínu Olgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.