Ólöf Nordal innanríkisráðherra gerir ráð fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í næstu framtíð, en þetta kom fram í viðtali við hana í útvarpsþættinum Sprengisandi um helgina. Fréttastofa RÚV greinir frá.

Ólöf segist ekki geta séð vænlegri kosti undir flugvöll en Vatnsmýrina „Flugvöllurinn er þar sem hann er. Það er ekki búið að byggja neinn annan flugvöll. Og það er ekki hægt að flytja flugvöll bara eitthvað út í buskann. Ég held að það sé töluvert eftir í þessari umræðu, og vil bara ítreka afstöðu mína: meðan flugvöllurinn er þar sem hann er, þá þarf hann að vera tryggur," er haft eftir henni.

Ólöf segir einnig að miklir fjármunir séu í spilinu. Menn láti eins og hægt sé að færa flugvöllinn. „Þetta eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir líka. Ég veit ekki einu sinni hvar við eigum að fá fjármuni til að gera eitthvað annað,“ sagði hún einnig. Þá dró hún það í efa að jafnmikil gjá sé á milli afstöðu landsbyggðar og höfuðborgar í málinu eins og margir vilji vera láta.